föstudagur, 15. desember 2017

Fljótleg graskerssúpa

Hér á eftir fer mjög einföld og fljótleg uppskrift að graskerssúpu.

Undirbúningur: 20 mín. Heildartími: 45 mín.

Innihald (fyrir sex manns)

2 msk matarolía
2 laukar, smátt saxaðir
1 kg grasker, skrælt, fræhreinsað og sneitt í bita
7 dl vatn
1/4 l rjómi
pipar eftir smekk
salt eftir smekk

Aðferð

1. Hitið olíuna í stórum potti og steikið laukinn við meðalhita í fimm mínútur, þar til hann verður mjúkur en ekki brúnn.

2. Bætið graskersbitunum út í og eldið áfram í 8-10 mín. og hrærið annað slagið, þar til graskerið mýkist og tekur lit.

3. Hellið vatninu og kryddinu út í. Látið suðuna koma upp og sjóðið í tíu mínútur þar til graskersbitarnir verða lungamjúkir.

4. Hellið rjómanum út í pottinn og látið suðuna aftur koma upp. Maukið nú súpuna með stafblandara eða stappara.

Berið fram með brauði.

sunnudagur, 10. desember 2017

Svínakjöt í tamarindsósu

Svínakjötið smellpassar í þessum rétti, soðið í þykkri tamarindsósu, mjúkt undir tönn og rennur ljúflega niður. Þetta er frekar einfaldur réttur að búa til miðað við marga aðra, en bölvað vesen miðað við flesta rétti á þessu bloggi, tekur vel á annan tíma allt í allt með biðtíma.

Undirbúningur
: 30 mín. Heildartími: 1 klst og 40 mín.

Svínakjöt í tamarindsósu ásamt grjónum

Innihald (fyrir sex manns)

55 g (þurrkað) tamarind, skorið gróflega
0,5 l soðið vatn
2 ferskir grænir chili, fræhreinsaðir og sneiddir gróflega
2 laukar, skornir gróft
2 hvítlauksrif, gróflega sneidd
1 cm engifer, gróflega sneitt
1 stilkur af sítrónugrasi, gróft skorið
2 msk smjör eða matarolía
1 msk kóríanderduft
1 tsk túrmerik
1 tsk kardemommuduft
1 tsk chiliduft eða cayenne pipar
1 kanilstöng eða 1 tsk kanill
1 kg svínakjöt, sneitt í teninga
1 msk ferskt kóríander (+ aukamagn til skrauts ef vill)
lítill þunnt sneiddur rauður chili til þess að skreyta ef vill

Aðferð

Setjið tamarindbitana í litla skál og hellið sjóðandi vatninu yfir. Látið liggja í hálftíma. Hellið vatninu í gegnum sigti í meðalstóra skál og pressið tamarindhlaupið í gegn eins og hægt er með sleif. Hendið restinni úr sigtinu (steinum og trefjum). Setjið því næst eina matskeið af tamarindvökvanum í matvinnsluvél ásamt grænum chili, lauk, hvítlauk, sítrónugrasi og engifer og maukið rækilega þannig að úr verði mjúkt þykkni. Hitið því næst smjörið eða olíuna í stórum potti og skellið fersku laukmaukinu út í ásamt kóríanderdufti, túrmerik, kardemommudufti, chilidufti (eða cayenne) og kanildufti eða -stöng. Hrærið vel í og blandið saman í tvær mínútur. Skellið nú svínakjötinu út í og hrærið hraustlega og stöðugt þar til bitarnir verða gullinbrúnir og ríkulega þaktir í kryddblöndunni. Hellið afganginum af tamarindvökvanum nú út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða í hálftíma með lokinu á. Takið lokið af og látið aftur sjóða í hálftíma, en nú án loksins, þar til svínakjötið verður mjúkt. Stráið nú fersku kóríander og þunnt sneiddum rauðum chili yfir.

Berið fram með hrísgrjónum, kartöflum eða brauði.

miðvikudagur, 6. desember 2017

Indverskur svepparéttur sem meðlæti (Mushroom Bhaji)

Þessi svepparéttur með graslauk er mjög fljótgerður og virkar ágætlega sem meðlæti með kjötréttum og grænmetisréttum.
Svepparéttur

Undirbúningur
: 20 mín. Heildartími: 30 mín.

Innihald (fyrir fjóra)

300 g sveppir
4 msk matarolía
1 laukur, fínsaxaður
1 ferskur grænn chili, fínsaxaður
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 tsk cumin
1 tsk kóríanderkrydd
1/2 tsk chiliduft eða cayenne pipar
1/2 tsk salt (eða eftir smekk)
1 msk tómatmauk
3 msk vatn
1 msk graslaukur, saxaður í um 1/2 cm bita (til skrauts)

Aðferð

Skolið sveppina og sneiðið í þykkar sneiðar. Hitið olíuna í meðalstórum potti og setjið síðan lauk og chili út í og hrærið reglulega í 5-6 mín, þar til laukurinn hefur mýkst. Bætið síðan hvítlauknum við og hrærið í 2 mín. Bætið því næst kóríanderkryddi, cumin, og chilidufti, hrærið og eldið áfram í eina mínútu. Setjið sveppina, salt og tómatmaukið út í og hrærið öllu vel saman. Hellið vatninu út í og lækkið hitann. Setjið lok á pottinn og sjóðið í 5 mín, hrærið aðeins í og sjóðið aftur í fimm mínútur. Nú ætti blandan að hafa þykknað, en ef hún er mjög vökvakennd, má sjóða áfram án loks í 3-4 mín til þess að þykkja blönduna.

Setjið réttinn á diskana og skreytið með graslauknum og berið fram.

mánudagur, 20. nóvember 2017

Sjóðandi tómatréttur

Tómatar eru oftast í aukahlutverki í indverskri matargerð, en í þessum rétti fá tómatarnir sviðsljósið og eru vel að því komnir, því bragðið svíkur ekki. Rétturinn hentar vel sem aðaltéttur og hrísgrjón passa vel sem meðlæti.

Undirbúningur: 30 mín. Heildartími: 1 klst.

Innihald (fyrir fjóra)

1 ½ tsk fennel (malað eða fræ)
1 ½ tsk svört sinnepsfræ
1 ½ tsk cuminfræ
1 ½ tsk kóríanderfræ
Repjuolía
2 stk laukur, skrældir og sneiddir í tvennt og síðan í örþunnar hálfmánalaga sneiðar
1 ½ tsk salt
8 karrýlauf
1,3 kg tómatar, gjarnan blanda af litlum gulum og rauðum (koteiltómötum eða konfekttómötum)
1 ½ grænn chili, mjög smátt saxaður
4 hvítlauksgeirar, rækilega kramdir eða saxaðir
2 ½ tsk tamarind mauk
400 ml kókosjólk

Aðferð

Hitið stóra pönnu á meðalhita og þegar hitinn er kominn upp, ristið fennel(fræ), sinnepsfræ, cuminfræ og kóríanderfræ. Hristið pönnuna sífellt á nokkurra sekúndna fresti, í 1-2 mínútur, þar til kóríanderfræin verða gullinbrún. Síðan er kryddblandan sett í mortel og möluð.

Hitið fjórar matskeiðar af olíu á pönnunni og þegar hitinn er kominn upp, skellið þá möluð kryddblöndunni á ásamt lauknum, saltinu og karrýlaufinu. Steikið í 10-12 mínútur. Sneiðið litlu tómatana í tvennt eða þrennt á meðan. Setjið nú hvítlauk og chili á pönnuna og hrærið vel í tvær mínútur. Síðan fylgja tamarind og kókosmjólk og hræra skal vel saman. 

Setjið tómatana því næst út í og eldið við miðlungshita í 20-25 mínútur án þess að hræra. Þannig halda tómatarnir forminu og draga betur í sig kókosmjólkina. Fyrir þá sem vilja enn bragðsterkari rétt má steikja nokkur karrýlauf í viðbót á lítilli pönnu og hella út í. Réttinn má bera fram með hrísgrjónum eða chapati pönnukökum.

sunnudagur, 12. nóvember 2017

Einföld tómatsúpa með kóríander

Þessi tómatsúpa hressir á köldum vetrardögum. Ef notaðir eru lítið þroskaðir tómatar má bæta við einni msk af tómatkrafti til bragðauka og það styrkir líka rauða litinn.

Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 30 mín.

Innihald (fyrir fjóra)

675 g tómatar, skrældir og sneiddir
1 msk olía
1 lárviðarlauf
4 vorlaukar, saxaðir
1 tsk salt
1 hvítlauksgeiri, kraminn
1 tsk svartur pipar, malaður
2 msk ferskt kóríander, sneitt
750 ml vatn
1 msk maíssterkja
2 msk matreiðslurjómi (má sleppa)

Aðferð

Tómatarnir eru fyrst settir heilir í pott með brennheitu vatni í hálfa mínútu og síðan veiddir aftur upp úr. Nú ætti að vera auðvelt að ná skinninu af. Ef ekki, smellið þeim þá aftur í vatnið í smá stund. Skrælið þá nú og sneiðið. Takið fram stóran pott, hitið olíuna og steikið tómatana, lárviðarlaufið og vorlaukana í nokkrar mínútur þar til þau verða mjúk. Bætið næst við salti, hvítlauk, pipar og kóríander. Hellið síðan vatninu út í. Hrærið öllu saman og látið sjóða við vægan hita í 5-10 mín.

Á meðan er maíssterkjan leyst upp í smá vatni þannig að úr verði þykkt rjomakennt mauk. Takið nú súpuna af hellunni og leyfið henni að kólna í nokkrar mínútur. Síðan er hún annaðhvort síuð í sigti eða hökkuð í blandara eða matvinnsluvél. Setjið súðuna síðan aftur á helluna, blandið maísstekjumaukinu saman við og hrærið í við vægan hita í um þrjár mínútur, þar til súpan hefur þykknað.

Setjið súpuna í skálar eða djúpa diska.Skreytið með smá matreiðslurjóma ef vill. Snæðið.

sunnudagur, 5. nóvember 2017

Indverskur kjúklingaréttur (Chicken Jalfrezi)

Jalfrezi kjúklingarétturinn er eldaður á wok-pönnu eða stórri steikarpönnu ásamt lauk, engifer og hvítlauk í bragðmikilli paprikusósu. 

Undirbúningur: 30 mín. Heildartími: 1 klst og 15 mín.

Innihald (fyrir fjóra)

675 g kjúklingabringur
1 msk matarolía
1 tsk cuminfræ
1 laukur, fínsaxaður
1 græn paprika, fínsöxuð
1 rauð paprika, fínsöxuð
2 hvítlauksgeirar, kramdir
2 cm ferskt engifer, fínsaxað
1 msk karrýmauk
1/4 tsk chiliduft
1 tsk kóríanderkrydd
1 tsk cumin
1/2 tsk salt
400 g ferskir eða niðursoðnir tómatar
2 msk ferskur kóríander (saxaður) + aukaskammtur til að skreyta í lokin
Hrísgrjón

Aðferð

Sneiðið kjúklingabringurnar í litla bita (2,5 cm) og skerið alla sýnilega fitu af. Hitið olíuna á pönnunni og steikið cumin fræin í tvær mínútur eða þar til það brakar í þeim. Bætið við lauknum, paprikunni, hvítlauknum og engiferinu og steikið í 6-8 mín. Setjið karrýmaukið saman við og steikið áfram í tvær mínútur. Bætið nú við chili-dufti, kóríanderkryddi, cumin og salti ásamt einni matskeið af vatni. Steikið í tvær mínútur enn. Skellið nú kjúklingabitunum á pönnuna og látið malla í fimm mínútur. Blandið síðan tómötunum saman við og fersku kóríander. Setjið lokið á pönnuna og eldið í 15 mínútur, eða þar til kjúklingabitarnir verða mjúkir. Skreytið að lokum með ferskur kóríander og berið fram með hrísgrjónum.

Chicken Jalfrezi
Jalfrezi kjúklingur með Basmati hrísgjónum

sunnudagur, 1. október 2017

Austurrísk eplakaka (Apfelstrudel)

Þýskt og austurrískt bakkelsi er vaflaust meðal besta bakkelsis í heiminum. Klassískt dæmi er eplakaka sem kallast á frummálinu Apfelstrudel og á rætur að rekja til Vínarborgar. Hentar mjög vel fyrir sunnudagskaffi eða sem eftirréttur. Hún bragðast vel ein og sér en líka með þeyttum rjóma eða ís.

Undirbúningur: 40 mín. Heildartími: 1 klst og 30 mín.

Innihald

Deig:
250 g hveiti
2 g salt
1 egg
100 ml volgt vatn
20 ml matarolía
Smá hveiti eftir þörfum til að hnoða saman deigið svo það límist ekki við lúkur eða plötu

Fylling:
100 g brauðmylsna
50 g smjör
140 g sykur
10 g kanill
200 g rúsínur
100 g hnetur (má sleppa)
10 g sítrónusafi
800 g epli, kjarnhreinsuð og sneidd
1 slurkur af rommi

Flórsykur til að sáldra yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Olía til að smyrja deigið þegar það er tilbúið.

Aðferð

Deig:
Innihaldsefnunum blandað saman í skál og hnoðað saman í deig. Mótað í kúlu og smurt með olíu og látið standa í hálftíma. Deigið ætti að vera vel teygjanlegt að þessu loknu. Nú er deigið rúllað út (á bökunarpappír) í þunna stóra ferkantaða pönnuköku. Smurt með smá olíu eða fljótandi smjöri.

Fylling:

Bræðið smjörið á pönnu. Setjið raspið á pönnuna og ristið þar til það verður gullibrúnt. Blandið kanil og sykri þannig að úr verði kanilsykur. Blandið því næst kanilsykrinum, ristaða raspinu, rúsínum, sítrónusafa, eplum og slurki af rommi saman. 

Setjið fyllinguna út á deigið og teigið jaðrana yfir þannig að úr verði lengja. Penslið með olíu og bakið í ofni við 190 gráður þar til kakan verður gullinbrún (um hálftíma). Takið kökuna út og penslið  með olíu eða bræddu smjöri. Látið standa í 15 mín og stráið smá flórsykri yfir.

Verði ykkur að góðu!

Austurrísk eplakaka (Apfelstrudel)

sunnudagur, 24. september 2017

Grænmetissúpa með sveppum og kartöflum

Á haustin og veturna er hressandi að fá sér matarmikla súpu. Hér á eftir fer bragðgóð grænmetissúpa með sveppum, kartöflum og lauk.

Undirbúningur: 40 mín. Heildartími: 40 mín.

Innihald

2 msk matarolía
1 laukur, fínsaxaður
1 hvítlauksgeiri, fínsaxaður
1 msk tímían
3 meðalstórar kartöflur, skrældar og sneiddar í litla bita
600 g sveppir (af mismunandi tegundum ef vill), saxaðir
5 bollar grænmetiskraftur
1/4 l rjómi
salt og pipar eftir smekk
stenselja (ef vill)

Aðferð

Hitið olíuna í stórum potti á meðalhita. Setjið lauk, hvítlauk og tímían út í. Eldið í fimm mínútur og hrærið jafnt og þétt. Bætið næst kartöflunum út í og eldið aftur í fimm mínútur.

Hækkið hitann upp í topp, bætið við sveppunum og eldið í fimm mínútur enn. Skellið næst grænmetiskraftinum út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða í 10 mínútur, en hrærið annað slagið.

Maukið súpuna (t.d. í matvinnsluvél eða handvirkt með stappara) og hellið síðan aftur í pottinn. Nú má bæta við salti og pipar og láta malla aðeins í viðbót við vægan hita.

Skreytið með smá tímían og stenselju og berið a borð með brauði.

miðvikudagur, 20. september 2017

Reiðufé og kreditkort

Á Íslandi kjósa flestir að greiða fyrir vörur og þjónustu með kreditkortum. Í því felast ýmis þægindi, m.a. að losna við íþyngjandi klink. Einnar krónu myntir hafa tilhneigingu til að safnast upp og þyngja veskið. Annar kostur við kreditkort er að þau gera fólki auðveldara að fylgjast með eyðslu sinni vegna þess að hver færsla er skráð í kerfið. Með þessu móti má auðveldlega rýna betur í eyðslu sína og taka ákvarðanir um hvar megi skera niður og spara og eins gera áætlanir um framtíðarútgjöld. Meniga er mjög sniðug þjónusta til þess að fylgjast með útgjöldum eftir flokkum og að gera fjármálaáætlanir út frá eyðslu fortíðar. Þetta er þjónusta sem ég sakna frá Íslandi, í Þýskalandi hef ég tamið mér að greiða næstum allt með reiðufé eins og innfæddir og sambærileg þjónusta við Meniga er ekki í boði eftir því sem ég best veit.

Hvers vegna að greiða með reiðufé?

Sú ástæða sem oftast er nefnd fyrir því að Þjóðverjar kjósa að greiða með reiðufé er að vilja ekki láta rekja færslur sínar, þ.e. að þær séu skráðar í tölvukerfi fjármálastofnana. Annar kostur við að nota reiðufé er að það gefur fólki betri tilfinningu fyrir útgjöldum og upphæðum. Þetta sýna rannsóknir og ástæðan er einfaldlega sú að sjónrænt og sálrænt gerir fólk sér betur grein fyrir upphæðunum sem það eyðir þegar þær eru á formi seðla og klinks í stað þess að plasti sé rennt í gegnum tæki og kort þannig „straujað“. Önnur ástæða fyrir mikilli notkun reiðufjár er sú að enn eru ýmis fyrirtæki sem neita að taka við kortum, þetta á t.d. við um marga veitingastaði og sumar matvörubúðir. En reiðufé er frekar gamaldags og gæti hugsanlega horfið á næstu árum.

Nýtt kortatímabil!

Oft heyrði ég auglýsingar í útvarpi á Íslandi um „nýtt kortatímabil!“ eins og það væri eftirsóknarvert. Nýtt kortatímabil þýðir í raun bara endurnýjað færi á að eyða um efni fram, nýtt færi á að eyða núna, borga seinna sem þýðir að velta vandamálum inn í framtíðina. Þetta er í svipuðum stíl og auglýsingar banka um árið sem beindust að námsmönnum um að „yfirdrátturinn brúaði bilið!“ eða „Ekki gefast upp! Það er hægt“ um fjármögnun fyrstu fasteignakaupa hjá Íslandsbanka.

Fólk eyðir meira með því að fresta skuldadögum inn í framtíðina. Þetta á bæði við um smærri lán eins og yfirdrátt á kreditkortum og stærri lán á borð við fasteignalán og námslán. Það er sama hvaða nafni lánið er kallað, oftast er skynsamlegra að sleppa því. Fólk þarf sjaldnast þá hluti sem það borgar með yfirdrætti og það kann að vera betri kostur að flytja úr landi en að gerast skuldaþræll banka á Íslandi og borga tvöfalt verð fyrir íbúð með því að greiða upp fasteignalán sem „er hægt!“. Að eitthvað sé hægt þýðir ekki að það sé skynsamlegt. En það er líka hægt að fara skuldugur í gröfina og skilja afstandendur eftir með reikninginn, allt hægt ef viljinn er fyrir hendi eins og maðurinn sagði. Þannig væri líklega nútímaútgáfan af höfðingjum Víkingaaldar sem létu grafa sig í haug með vopnum og öðru drasli sínu. Nútímamaðurinn getur látið grafa sig með fellihýsi, flatskjá, tískufötum og skuldum!

sunnudagur, 17. september 2017

Þvottaefni – verð og gæði

Um daginn fór ég út í búð og ætlaði að kaupa þvottaefni. Eina þvottaefnið sem þar var í boði var Ariel svo ég keypti það. Það virtist frekar dýrt við fyrstu sýn en ég hafði engan samanburð í búðinni og tók það í staðinn fyrir að fara í aðra búð að finna annað. Þegar heim var komið gerði ég verðsamanburð og sá að ég hafði borgað tvöfalt meira fyrir þvottaefnið en ég borga venjulega fyrir engu síðri þvottaefni annarra framleiðenda. Ariel er eitt þeirra merkja sem selt er hærra verði í krafti sterkrar stöðu sinnar á markaðnum, án þess að verðmunurinn endurspegli endilega gæðamun. Álagning þessarar búðar hefur væntanlega líka verið há.

Þvottaefni fyrir fatnað eru misjöfn að verði og gæðum. Fólk er oft tilbúið að borga meira fyrir gæði. En spurningin er hvort Ariel er betra en ódýrari þvottaefni keppinauta. Hvað felst í því að vera betri? Góðir þvottaeiginleikar eru eflaust það mikilvægasta sem fólk gerir kröfu um ásamt verði. Aðrir þættir sem vert er að huga að eru umhverfisáhrif og áhrif á heilsu, t.d. forðast fólk þvottaefni sem það hefur ofnæmi fyrir.

Á stærri mörkuðum erlendis, s.s. í Þýskalandi, Bretlandi og Danmörku er hefð fyrir vöruprófunum, þar sem óháðir aðilar prófa vörur í sömu flokkum hver gegn annarri. Lítið er um slíkar prófanir á Íslandi, líklega vegna smæðar markaðarins, kannski helst að fjölmiðlar geri slíkar prófanir en þær eru sjaldnast markvissar eða staðlaðar á nokkurn hátt. Helst að prófaðir séu t.d. mismunandi jólabjórar af nokkrum álitsgjöfum og einkunnir gefnar. Þetta getur gefið vísbendingar fyrir neytendur en segir þó kannski mest um smekk álitsgjafanna, en minna um hvað hverjum og einum bjórunnanda úti í bæ kann að líka.

Vöruprófanir erlendis mæla gjarnan þá eiginleika sem neytendur gera kröfu um í hverjum vöruflokki fyrir sig. Fyrir þvottaefni geta þetta verið t.d. þvottaeiginleikar, verð og umhverfisáhrif. Fyrir hvern þátt er gefin einkunn og svo er reiknað meðaltal þáttanna til þess að fá heildareinkunn hverrar vöru.
Góðir valkostir í stað Ariel í íslenskum verslunum eru t.d.:

·         Milt þvottaefni frá Mjöll Frigg
o   mengar minna því það þarf ekki að flytja það til landsins
o   umhverfisvænt, án ilmefna og ofnæmisvaldandi efna
·         Neutral (ofnæmisprófað, lyktarlaust og umhverfisvænt)


Auglýsingar í sjónvarpi á borð við Mr. Proper með gljáfægðan skallann og glansandi gólf eða Vanish þar sem óhreinindin hverfa (rauðvín, hakk og spagettí, smurolía og hvaðeina hverfur úr hvítu buxunum!) hafa í gegnum tíðina verið helstu opinberu upplýsingar sem Íslendingar fá um þvottaefni. En það er ágætt að hugsa sig aðeins um og gera samanburð áður en maður gleypir við auglýsingaboðskap.

sunnudagur, 10. september 2017

Ofnbakað rótargrænmeti

Nú er komin ný uppskera af rótargrænmeti í verslanir, t.d. kartöflur, rófur og gulrætur. Þá er tilvalið að taka fram eldfast mót og skræla og sneiða eins og enginn væri morgundagurinn. Hér kemur uppsrift að ofnbökuðu rótargrænmeti.

Undirbúningur: 30 mín. Heildartími: 1 klst. og 10 mín.

Innihald

1 kg blandað rótargrænmeti (t.d. kartöflur, gulrætur og rófur)
2 msk. ólívuolía
3 msk. hunang
1 appelsína
tímían (ferskt eða þurrkað)
salt og pipar

Aðferð

Skrælið rótargrænmetið og skerið niður í teninga. Smyrjið eldfast mót með olíu og hunangi, setjið grænmetið í og pressið/kreistið appelsínuna yfir. Restina af appelsínunni má sneiða og setja með í mótið. Kryddið með salti, pipar og tímían. Bakið í ofni við 190 gráður í 40 mínútur, eða þar til grænmetið verður gullinbrúnt. Verði ykkur að góðu!

Ofnbakað rótargrænmeti

föstudagur, 1. september 2017

Rifsberjahlaup með hunangi

Undirbúningur: 15 mín Heildartími: 30 mín.

Hér er mjög einföld uppskrift að rifsberjahlaupi með hunangi í stað sykurs.


Innihald

1 kg rifsber (með stilkum og laufblöðum)
1 dl vatn
4 msk hunang


Aðferð

Notið vel þroskuð ber með slatta af stilkum og laufblöðum (til þess að gera hlaupið hlaupkennt). Skolið og setjið í pott og hellið vatninu yfir (1 dl fyrir hvert kíló af berjum). Látið suðuna koma upp og sjóðið svo við vægan hita þar til þetta verður að mauki.

Bætið nu við 4 msk af hunangi fyrir hvert kíló af berjum. Hrærið öllu vel saman og látið sjóða aftur í nokkrar mínútur. Sigtið síðan maukið og skiljið stilkana og laufblöðin frá. Setjið að lokum beint í litlar hreinar glerkrukkur til geymslu.

Geymist í ísskáp eða á öðrum köldum stað.

Rifsberjarunni
Rifsber

sunnudagur, 27. ágúst 2017

Námslán og gildi náms

Þegar ég byrjaði í háskóla fyrir meira en 10 árum tók ég námslán frá LÍN og hélt því áfram á hverju misseri þangað til að ég lauk háskólanámi sex árum síðar. Að lokum var námslánið orðið um átta milljónir króna og munaði mest um dvölina erlendis, þar sem lánið var í samræmi við framfærslukostnað í Danmörku. Stærsti einstaki hluti lánsins var fyrir lokaár háskólanámsins þar í landi, vegna þess að ég valdi að taka eitt ár eftir masterspróf í einkareknum skóla þar sem greidd eru skólagjöld.

Námslánin dugðu vel til framfærslu en maður lifði engu kóngalífi, enda ekki hugmyndin. Oft heyrði ég íslenska námsmenn kvarta yfir því að námslánin væru of lág og dygðu varla til framfærslu. Þetta er m.a. þekkt stef í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands. Ég upplifði aldrei að námslánin dygðu ekki en veit að sumir gerðu kröfur um að þau dygðu til að reka bíl, djamma hverja helgi og svo framvegis. En eiga námslánin að duga fyrir slíkum lífsstíl? Er djamm og bíll á einhvern hátt forsenda þess að geta stundað nám?

Enn einkennilegra fannst mér að heyra danska námsmenn kvarta undan því að námsstyrkurinn sinn (SU) væri of lágur og dygði ekki til framfærslu. Danskir námsmenn eru forréttindahópur á heimsvísu, sem geta fengið framfærslustyrk frá danska ríkinu á meðan þeir stunda nám sitt. Þeir þurfa ekki að greiða krónu með gati til baka og borga þess utan engin skólagjöld í ríkisreknu háskólunum.

Íslenskir námsmenn eru líka forréttindahópur í samanburði við marga aðra námsmenn. Það voru þó nokkrir Litháar í náminu með mér sem gátu ekki fengið námslán frá heimalandinu og voru sumir hverjir að harka í illa launuðum hlutastörfum til þess að geta framfleytt sér samhliða náminu. Einn þeirra dreifði miðum í póstkassa hjá fólki og bauðst til þess að þrífa á heimilum þess. Þetta frétti ég frá dönskum vini mínum í náminu sem hafði fengið slíkan miða í póstkassann hjá sér frá skólafélaga okkar, sem líklega hefur ekki vitað að hún væri að dreifa miða til einhvers sem þekkti hana, en kannski hefur henni verið alveg sama um það. Kannski snerist þetta bara um að bjarga sér einhvern veginn.

Borgar sig að taka námslán?


Það fer eftir forsendum hvers og eins hvort það borgar sig að taka námslán. Sumir taka námslán og leggja þau inn í banka í heild sinni, ávaxta þau síðan með hærri vöxtum en vextirnir sem þeir þurfa að greiða af lánunum og koma þannig út í plús. Ég man eftir fólki segja að það margborgaði sig að taka námslán, því þau væru svo hagstæð miðað við fasteignalán og að flestir þyrftu einhvern tímann lán. Að þau séu hagstæðari en flest önnur lán segir ekki alla söguna né endilega að það borgi sig að taka þau.

Þeir eru mjög margir sem taka námslán til framfærslu á námsárum sínum. Ágætt er að velta fyrir sér hvernig starfi fólk sækist eftir áður en háskólanám er valið og muna að námslánin þarf að greiða til baka síðar. Það er líka ágætt að velta fyrir sér hvernig tekjur fólk gæti haft af slíku starfi, þótt þær forsendur geti auðvitað breyst á námstímanum. Heimurinn er að breytast hratt og reynist mörgum erfitt að finna vinnu við hæfi eftir háskólanám. Hjá sumum tekur við atvinnuleysi mánuðum saman með dassi af þunglyndi og vonleysi. Við lesum fréttir um að vélmenni og tölvur muni koma í stað margra starfa sem til eru í dag á næstu árum. En sumir spá því líka að til verði ný störf sem geti komið í stað þeirra sem verða tekin yfir á þennan hátt. Eitt er víst, að það borgar sig fyrir fólk sem er að koma inn á vinnumarkað úr háskólanámi að vera sveigjanlegt. Það er ekki víst að starf sem tengist beint náminu finnist til að byrja með en draumastarfið gæti dottið inn seinna.

Þegar ég kláraði háskólanámið var ég búinn að gera lista af geirum sem ég gat hugsað mér að vinna í og sem ég gæti hugsanlega fengið vinnu við. Einn þessara geira var markaðssetning og þremur mánuðum eftir að ég lauk námi var ég komin með vinnu við markaðssetningu á netinu. Vinnuna fékk ég aðallega vegna dönskukunnáttu minnar og svo þurfti ég einfaldlega að læra um markaðsmálin frá fyrsta degi í starfinu.

Byggt á eigin reynslu get ég ekki mælt með því að taka námslán. Ef ég væri að hefja háskólanám í dag þá kysi ég frekar að vinna hlutastarf með námi en að taka þau, því þá þyrfti ég ekki að hafa neinar áhyggjur af endurgreiðslu láns að námi loknu.

Þetta eru spurningar sem fólk ætti að velta fyrir sér áður en ákveðið er að taka námslán:
  • Hve mikið þarf ég að borga til baka í einu, hve oft og yfir hve langt tímabil?
  • Hvernig starf get ég hugsað mér að námi loknu og hvernig tekjur gæti það gefið?
  • Hef ég tök á að vinna með skóla og get ég þá sleppt námsláninu?

fimmtudagur, 24. ágúst 2017

Plastpokar og aðrir valkostir

Plastpokar eru gjarnan notaðir undir vörur neytendur kaupa í verslunum, t.d. í matvörubúðum. Aukin umræða um umhverfisáhif plasts hefur orðið til þess að margir reyna nú að draga úr plastnotkun sinni, s.s. með því að nota margnota poka. Plast tekur óratíma að eyðast upp í náttúrunni og mengar m.a. hafið og lífríki þess. Einnota pokar úr pappa eru annnar valkostur en við framleiðslu þeirra þarf mjög mikið vatn og þeir skemmast yfirleitt hraðar en plastpokar.

Á hverju ári safnast 8 milljón tonn af plasti fyrir í hafinu. Plast tekur upp undir 500 ár að eyðast í náttúrunni og safnast því auðveldlega upp í sjó og á landi. Plastúrgangurinn sem fer í sjóinn getur endað í okkur, vegna örsmárra plastagna í fiskum og öðrum sjávardýrum, sem við síðan borðum.

Sumar verslanir leggja sitt af mörkum til þess að draga úr notkuninni. Aldi verslanakeðjan í Þýskalandi hefur nýlega tilkynnt að hún ætli að hætta alfarið að bjóða viðskiptavinum einnota poka undir vörur, það gildir bæði um poka úr plasti og pappa. Þess í stað geta viðskiptavinir Aldi notað fjölnota poka eða pappakassa undan vörum sem Aldi hafa fengið frá birgjum sínum. Breska verslanakeðjan Tesco hefur einnig tilkynnt að þeir muni hætt að bjóða upp á einnota poka í verslunum sínum frá og með næstu mánaðamótum og aðeins bjóða fjölnota poka, sem unnir eru úr 94% endurunnu plasti. 

sunnudagur, 20. ágúst 2017

Dal Makhani (indverskur linsubaunaréttur)

Dal Makhani er linsubaunaréttur sem á rætur að rekja til Punjab héraðs nyrst á Indlandi. Hann lítur ekki girnilega út en bragðið svíkur engan. Undirbúningur hefst deginum aður með því að setja nýrnabaunir og linsubaunir í vatn og inn í ísskáp.

Undirbúningur: 8 klst. Heildartími: 9 klst.
Dal Makhani, hrísgrjón og salat

Innihald

1 bolli heilar urad linsubaunir
1/4 bolli nýrnabaunir
4 bollar vatn
1 meðalstór laukur (fínsaxaður)
2 grænir chili (fínsaxaðir)
3 hvítlauksgeirar (fínsaxaðir)
2 stórir tómatar (saxaðir)
1/2 tsk. cuminfræ
2-3 negulnaglar
1/2 tsk. chiliduft
2-3 msk. rjómi
3 msk. smjör
salt eftir smekk

Aðferð

Látið linsubaunirnar og nýrnabaunirnar liggja í bleyti yfir nótt. Hellið vatninu af, skolið og setjið í hraðsuðupott. Hellið fjórum bollum af vatni yfir baunirnar og sjóðið í 15-20 mín. Léttið á þrýstingnum í pottinum og hellið vatninu af þegar hann er farinn. Skolið baunirnar aftur og setjið svo aftur í hraðsuðupottinn. Hellið aftur fjórum bollum af vatni yfir baunirnar, ásamt tómötunum, smjöri, hvítlauk, chilidufti, rjóma og salti. Hrærið vel saman.

Sjóðið nú aftur í 15-20 mín á háum eða meðalhita. Léttið á þrýstingnum og athugið þykktina á réttinum. Linsubaunirnar ættu nú að vera alveg eldaðar og mjúkar. Látið nú malla án loks á lágum til meðalhita, þar til þykktin nær jafnvægi og mýkt. Kremjið nokkrar linsubaunir til þess að þykkja blönduna. Linsubaunirnar eiga nú að vera nógu mjúkar til að bráðna í munni. Smakkið og bætið við salt eða chilidufti ef með þarf. Látið nú malla í 15-18 mín. í viðbót þar til þykktin verður mátuleg. 

Berið réttinn fram með hrísgrjónum, nanbrauði eða roti pönnnukökum. 


föstudagur, 11. ágúst 2017

Arabískur pastaréttur (Penne al'arrabiata)

Penne al'arrabiata er einfaldur pastaréttur sem rífur aðeins í bragðlaukana. Uppistaðan er "penne" pasta og tómata- og chilisósa. Blandan með ferskum basil kom mér mjög skemmtilega á óvart fyrst þegar ég prófaði.

Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 30 mín.


Innihald
Penne al'arrabiata

6 msk. matarolía (ólívuolía eða repjuolía)
2 stk. gulir chili (fínsaxaðir)
2 hvítlauksgeirar (saxaðir)
handfylli af basillaufum
600 g niðursoðnir tómatar
salt eftir smekk
400 g penne pasta
parmesan eftir smekk

Aðferð

Hitið matarolíuna á stórri pönnu og bætið chili og hvítlauk út á. Látið malla í eina mínútu og bætið síðan við basillaufunum. Hrærið þeim varlega saman við. Takið blönduna af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið tómatana nú á pönnuna og síðan blönduna saman við. Látið malla í a.m.k. 10 mínútur, þar til sósan hefur þykknað sæmilega. Bætið við salti eftir smekk.

Sjóðið pastað á sama tíma í stórum potti með söltu vatni með slurki af ólívuolíu. Hellið vatninu af pastanu og hellið sósunni yfir. Stráið parmesan yfir og berið á borð.



sunnudagur, 6. ágúst 2017

Rajma (indverskur nýrnabaunaréttur)

Rajma er virkilega bragðgóður grænmetisréttur úr nýrnabaunum og einn af bestu réttunum sem ég smakkaði á Indlandi. Það er hægt að nota niðursoðnar nýrnabaunir og undirbúa réttinn samdægurs en ég nota venjulega þurrar nýrnabaunir, sem ég læt þá fyrst liggja í bleyti inni í ísskáp yfir nótt. Rétturinn hentar vel með hrísgrjónum eða nanbrauði.

Undirbúningur: 8 klst (eða 5 mín með niðursoðnum nýrnabaunum)  Heildartími: 9 klst. (eða 35 mín með niðursoðnum nýrnabaunum)


Innihald

150 g nýrnabaunir
2 meðalstórir laukar (saxaður)
2 stórir tómatar (sneiddir í litla bita)
2 grænir chili (smátt saxaðir)
1 cm ferskt engifer (smátt saxað)
1 tsk kóríanderkrydd
1/2 tsk garam masala
1 tsk salt
Dass af ferskum kóríander (ef vill)

Aðferð

Leggið nýrnabaunirnar í skál með vatni inn í ísskáp og látið standa yfir nótt (sleppið ef notaðar eru niðursoðnar baunir).

Sjóðið baunirnar í hraðsuðupotti í hálftíma. Hitið olíu í stórum potti og bætið síðan við söxuðum lauk og engifer. Steikið þar til laukurinn verður gullinbrúnn. Bætið tómötunum við ásamt grænum chili og sjóðið þar til blandan verður hlaupkennd. Bætið nú við kóríanderkryddi, salti og tveimur bollum af vatni og sjóðið vel. Bætið næst við nýrnabauninum úr hraðsuðupottinum eða dósinni og sjóðið við vægan hita í 10 mínútur. Stráið garam masala yfir réttinn og sjóðið í 15 mínútur í viðbót þar til blandan þykknar.

Skreytið að lokum með ferskum kóríander og berið fram með hrísgrjónum eða nanbrauði.

Rajma (indverskur nýrnabaunaréttur)


sunnudagur, 30. júlí 2017

Gróft brauð

Þessa brauðuppskrift og mismunandi útgáfur af henni hef ég bakað í meira en tíu ár. Pabbi fann upprunalegu uppskriftina í dönsku dagblaði þegar ég var barn og árum saman eftir það bakaði hann alltaf brauðið sem við borðuðum og keypti aldrei brauð. Brauðið sló í gegn á heimilinu og meðal gesta og nágranna.

Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 2 klst. og 30 mín.

Innihald

400 g hveiti (eða 300 g hveiti og 100 g hveitikjarnar)
200 g rúgmjöl
200 g sigtimjöl/spelt
200 g heilhveiti
1 tsk salt
----------
25 g ger
7 dl vatn

Aðferð

Þurrefnunum blandað vel saman í skál. 25 g ger skulu leysast upp í 3 1/2 dl af volgu vatni. Síðan skal aftur bæta við 3 1/2 dl af volgu vatni. Gerblöndunni er síðan hellt saman við þurrefnin og deigið hnoðað vel (með sleif) og látið hefa í eina klst. Síðan er deigið sett í bökunarform og látið eftirhefa í hálftíma í formunum. Að lokum fer þetta í ofninn á 180 gráður C á blæstri í 35 mín.

Gott er að strá rúgmjöli í olíusmurð formin til þess að brauðið festist síður við formin. Verði ykkur að góðu!

sunnudagur, 23. júlí 2017

Indverskar matarpönnukökur (Aloo Paratha)

Meðal þess besta sem ég hef smakkað úr indverskri matargerð eru þykkar matarpönnukökur með grænmetisfyllingu. Það eru til ýmsar útgáfur með mismunandi grænmeti, s.s. með gulrótum, lauk, hvítlauk og engifer. Þessi útgáfa er með þeim einfaldari með fyllingu úr kartöflum, chili o.fl. Það er hægt að elda þær t.d. á venjulegri steikarpönnu og þær geta verið í morgunmat, hádegismat eða kvöldmat eftir smekk hvers og eins.


Innihald


Fylling

4-5 kartöflur
1 msk. matarolía
1/2 tsk. cuminfræ
1/4 tsk. túrmerik
2-3 grænir chili, fínsaxaðir
dass af ferskum kóríander, fínsöxuðum
1/2 tsk. Garam Masala
salt eftir smekk


Deig

2 bollar hveiti
1 msk smjör eða matarolía
salt eftir smekk
2 msk. (grísk) jógúrt
vatn sem nægir til að gera deig
2-3 tsk smjör eða olía til steikingar

Aðferð


Fylling

Hitið olíu á pönnu og bætið við cuminfræum, takið af hellunni þegar fer að braka í fræunum. Sjóðið kartöflur (hægt að sjóða í örbylgjuofni til að flýta fyrir). Kælið kartöflurnar, skrælið og stappið þær. Bætið nú við öllum hinum innihaldsefnunum í fyllinguna og cumin af pönnunni og blandið vel saman. Blandan ætti að vera þurr og vatnslaus. Annars verður erfitt að fletja út pönnukökurnar. Leggið blönduna til hliðar.


Deig

Setjið hveitið í skál og bætið við salti og smjöri/olíu og jógúrt. Bætið vatninu við smátt og smátt. Hnoðið vel saman í meðalmjúkt deig. Setjið rakan klút yfir og látið deigið standa í 20-30 mín. Hnoðið deigið nú aftur.


Að fletja út pönnukökurnar

Skiptið deiginu upp í litlar kúlur og fletjið þær síðan út með kökukefli í litlar pönnukökur. Setjið fyllinguna á pönnukökurnar og formið þær utan um fyllinguna, fyrst eins og litla skál og lokið svo þannig að úr verði kúla með fyllingu. Stráið smá hveiti á og fletjið út í pönnuköku á ný. Steikið nú á pönnunni með smá smjöri/olíu þannig að pönnukökurnar verði gullinbrúnar á báðum hliðum. Berið að lokum fram heitar, brakandi og gómsætar pönnukökur.

laugardagur, 22. júlí 2017

Indverskur morgunverður (Aloo Poha)

Poha er mjög einfaldur, léttur og bragðgóður réttur sem fljótlegt er að elda. Hann á rætur að rekja til norðurhluta Indlands og er vinsæll á heimilum og fæst stundum líka tilbúinn á götuhornum sem "street food". Aðalhráefnið í réttinn eru hrísgrjónaflögur eða flöt hrísgrjón (e. beaten rice eða rice flakes). Það gæti reynst erfitt að finna á Íslandi en ég hef pantað á netinu með ágætum árangri og þetta fékkst á sínum tíma hjá Indía Sól á Suðurlandsbraut (en ég er ekki viss um að sú búð sé starfandi lengur). Uppskriftin fer hér á eftir:

Undirbúningur: 10 mín. Heildartími: 30 mín.

Indverskt PohaInnihald

1/4 tsk svört sinnepsfræ
1 msk hnetur (má nota salthnetur)
4 msk matarolía
2 bollar Poha (hrísgrjónaflögur)
1 meðalstór kartafla
1 laukur
2 grænir chili
1/2 tsk túrmerik
smá sítrónusafi
nokkur karrýlauf (má sleppa)
ferskt kóríander
salt eftir smekk


Aðferð

Setjið poha (hrísgrjónaflögurnar) í sigti og bleytið vel og skolið með vatni. Síið vatnið frá og setjið túrmerik og salt yfir þær og leggið til hliðar.

Fínsaxið lauk chili og kóríander. Sneiðið kartöfluna í litla teninga og eldið þá í örbylgjuofni í tvær mínútur.

Hitið matarolíu á pönnu og bætið við sinnepsfræum, hnetum og karrýlaufum. Steikið þar til fer að braka aðeins í þeim. Bætið næst við chili, lauk og kartöflubitunum. Hrærið vel saman og bætið við salti eftir smekk. Látið malla á meðalhita í nokkrar mínútur.

Eldið þar til laukurinn verður gullbrúnn og kartöflurnar mjúkar. Bætið nú við kóríander og poha og hrærið öllu vel saman. Eldið við vægan hita í 5-10 mínútur.

Takið pottinn nú af hellunni og leyfið réttinum aðeins að kólna. Sprautið að lokum smá sítrónusafa yfir og dassi af söxuðum kóríander. Nú er Aloo Poha tilbúinn.
Aloo Poha

föstudagur, 7. júlí 2017

Basilpestó (grænt pestó)

Undirbúningur: 10 mín. Heildartími: 15 mín.
Ferskt basil er fallega grænt og sumarlegt á að líta. Spænt niður í pestó bragðast það mjög vel. Hér á eftir fer uppskrift að fljótlegu og einföldu basilpestói.

Grænt pestó

Innihald

100 g grænt basil
2-3 hvítlauksrif
1/2 tsk salt
1/2 bolli furuhnetur (má nota möndlur eða jarðhnetur í staðinn)
1/2 bolli rifinn parmesan
1/4 bolli ólífuolía eða repjuolía

Aðferð

Hakkið basil, hvítlauk, salt og furuhnetur saman. Bætið síðan við parmesan og að lokum matarolíu. Hrærið þar til maukið verður eins og þykk sósa. Látið að lokum þunnt lag af olíu fljóta yfir, þannig geymist pestóið betur.
Basilpestó á brauð



sunnudagur, 2. júlí 2017

Að kaupa föt á netinu

Netverslun hefur vaxið hratt á undanförnum árum, t.d. á fatnaði, raftækjum og húsgögnum. Að versla á netinu felur í sér ákveðin þægindi og í mörgum tilvikum tímasparnað. Netverslun hefur gjörbreytt neyslumenningunni og einn angi þróunarinnar er að hefðbundnar verslanir verða stundum eins og sýningarstaðir fyrir vörur sem neytendur panta síðan á netinu. Þetta getur t.d. átt við í fataverslunum, þar sem neytandinn kemur í búðina og mátar en pantar síðan varninginn hjá annarri verslun á netinu, t.d. þar sem lægra verð fæst. Á Íslandi hafa pantanir frá Aliexpress snaraukist, enda verðið oftar en ekki hagstæðara en það sem býðst annarsstaðar en vörurnar eru þá sendar frá Kína.

Lágt verð á fatnaði er einn þeirra þátta sem stuðlar að óábyrgri neysluhegðun, sem felst meðal annars í því þegar fólk kaupir miklu meira af fötum en það þarf. Það þykir smart að gera „góð kaup“ á útsölu, þótt flíkurnar endi jafnvel ónotaðar í fataskápnum. Fataframleiðsla er einn mest mengandi iðnaður í heimi (númer tvö á eftir olíuiðnaðnum) og meira af skordýraeitri er notað vegna bómullarræktunar en í nokkurri annarri ræktun. Fólkið sem framleiðir fötin þarf í mörgum tilvikum að strita á lúsarlaunum við að plokka bómull, að standa berfætt í sýrubaði með fötin og sæta hótunum og ofbeldi frá yfirmönnum.

Á Íslandi eyddi fólk tæpum 200 þúsund krónum í föt á mann í fyrra skv. Meniga. Með því að eyða helmingi minna mætti t.d. komast í ágæta utanlandsferð eða spara meira fyrir útborgun á íbúð. „Ekki gefast upp“, eins og Íslandsbanki orðar það í auglýsingaherferðinni.

Hvaða lausnir eru í boði?

Sem neytendur getum við lagt okkar af mörkum til að breyta fataiðnaðinum. Við getum t.d. átt og notað fötin okkar lengur. Við getum gert við þau eða látið gera við þau ef þau eru farin að gefa sig og við getum keypt notuð föt í stað nýrra. Fatnað sem við notum ekki getum við gefið í fatasöfnun, t.d. hjá Rauða krossinum, líka fatnað sem er slitinn því hann er líka endurnýttur, m.a. í tuskur.

mánudagur, 19. júní 2017

Bananabrauð

Undirbúningur: 10 mín. Heildartími: 55 mín.
Ágæt leið til að nýta brúna og slappa banana er að stappa þá í mauk og nota þá í bananabrauð. Hér er uppskrift að bananabrauði sem baka má í tveimur ílöngum kökuformum.

Innihald

2 egg
2 dl sykur
2 dl hunang
4 maukaðir bananar
2 tsk salt
1 tsk matarsódi
2 tsk kanill (má sleppa)
1 lúka af rúsínum (má sleppa)
6 dl hveiti
6 dl spelt

Aðferð

Þeytið egg og sykur vel saman með pískara. Stappið banana í mauk og hrærið þeim saman við sykruðu eggjablönduna. Blandið þurefnunum saman í skál. Hrærið þeim síðan varlega saman við eggjagumsið. Setjið í tvö ílöng bökunarform og bakið í 45 mín. við 180 gráður á blæstri.

Bananabrauð með rúsínum


laugardagur, 10. júní 2017

Indverskur hvítkáls- og kartöfluréttur

Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 30 mín.
Indverjar kunna að elda ótrúlegustu rétti úr kartöflum og kryddi. Uppistaðan í þessum einfalda og fljótlega grænmetisrétti eru kartöflur, hvítkál og laukur. Sem meðlæti má t.d. nota nanbrauð, hrísgrjón eða kartöflupönnukökur (parathas).

Innihald

1 hvítkálshaus
2 msk matarolía
2-3 meðalstórar kartöflur, sneiddar í litla teninga
1 meðalstór laukur
¾ tsk cuminfræ
¾ tsk svört sinnepsfræ
½ tsk túrmerik
½ tsk kóríander
Kókosflögur eða kókosmjólk (valkvætt)
Ferskur kóríander (valkvætt)

Aðferð

1. Brytjið hvítkálið í ræmur eða teninga
2. Hitið olíu á stórri pönnu á meðalhita
3. Bætið við cumin og sinnepsfræum þegar olían er orðin heit
4. Bætið við fínt söxuðum lauk
5. Leyfið lauknum að mýkjast og skellið næst brytjaða hvítkálinu á pönnuna
6. Bætið við salti, túrmerik og kóríander
7. Setjið lokið á pönnuna, lækkið hitann aðeins og leyfið þessu að malla þar til kálið verður mjúkt
8. Þegar kálið hefur skroppið saman, bætið kartöfluteningunum út í og eldið áfram á meðalhita þar til kartöflurnar verða mjúkar (hrærið við og við)
9. Ef þið viljið, bætið kókosflögunum eða kókosmjólkinni út á og látið malla aðeins lengur
10. Skreytið með ferskum kóríander
11. Berið á borð 

indverskur matur
Indverskur hvítkáls- og kartöfluréttur

sunnudagur, 4. júní 2017

Ódýrt flug frá Íslandi

Verð á flugi hefur lækkað mikið á undanförnum árum með aukinni samkeppni. Neytendur hafa meira val en áður og nefna má uppgang lággjaldaflugfélaga á borð við Norwegian og WOW Air sem dæmi um áður óþekkta valkosti. Áður þurfti að hringja eða fara á ferðaskrifstofur í eigin persónu til þess að bóka t.d. sólarlandaferðir, en nú er hægt að bóka á netinu. Að skipuleggja og bóka ferð á netinu getur hins vegar verið tímafrekt og þreytandi. Hvert á að fara? Hvað á að gera og skoða?

Flugleitarvélar á borð við Google Flights og Dohop geta hjálpað fólki að finna ódýrt flug. Ef fólk er sveigjanlegt varðandi ferðatíma og/eða áfangastaði má t.d. nýta verðdagatalið hjá Google Flights eða Dohop Go hjá Dohop. Verðdagatal Google Flights birtist beint neðan við leitargluggana fyrir brottfararstað og áfangastað:


Í dæminu leitaði ég að flugi fram og til baka fyrir tvo fullorðna í júní. Ef mig langar að kanna hvort ég get fengið fimm daga ferð til Berlínar á lægra verði með því að ferðast síðar skoða ég verðgrafið með því að smella á „Price graph“. Þar get ég séð að núna er þetta lægsta verð sem finnst á fimm daga ferð til Berlínar:




Með Dohop Go má kanna til hvaða áfangastaða er ódýrast að fljúga. Fyrst vel ég mánuðinn júní og athuga hvaða möguleikar koma upp fyrir 5-7 daga ferð. Lægsta verðið er á ferð til London, 9.279 krónur, en vitandi hve dýr borg London er get ég líka valið t.d. Vilníus á 14.324 kr.:


Stundum hækkar verð á flugmiðum sem þú hefur fundið eftir nokkrar leitir og samanburð. Það getur verið byggt á smákökum (e. cookies) í vafranum. Þetta er lúmskt bragð úr markaðsmálum til þess að stressa notendur og fá þá til þess að flýta sér að bóka, þ.e. ef þeir halda að nú geti verðið ætt upp á hverri stundu. Það mætti líkja þessu við sögur af verðbólgudraugnum, Grýlu, Leppalúða og jólakettinum sem hafa stressað Íslendinga eins lengi og elstu menn muna. Þeir sem vilja ekki smákökur í vafrann sinn og meðfylgjandi skyndilegar verðhækkanir á flugmiðum, geta farið huldu höfði með „incognito mode“ sem flestir vafrar bjóða upp á, sbr. þetta skjáskot úr Google Chrome:


þriðjudagur, 30. maí 2017

Ódýr rakvélablöð

Rakstur og skeggsnyrting geta kostað skildinginn. Kostnaður við hefðbundin rakvélablöð getur auðveldlega hlaupið á tugum þúsunda á ári. Gillette er einn af risunum á markaðnum og taka má dæmi af fjögurra blaða pakka af Fusion Proglide rakvélablöðum, sem kosta í dag 2649 kr. hjá Hagkaupum og 3450 kr. hjá Heimkaupum. Það er einstaklingsbundið hve lengi svona pakkar geta enst við reglulegan rakstur, sumir segja mánuð, aðrir tvo mánuði o.s.frv. (sjá t.d. hér).  Samkvæmt Gillette fyrirtækinu endist hvert blað í allt að mánuð, sem þýðir að einn pakki gæti enst í fjóra mánuði. Miðað við mína reynslu af Gillette blöðum er endingin miklu styttri, kannski vika eða tvær í mesta lagi á hvert blað, þ.e. 1-2 mánuðir á hvern pakka. Áætlaður kostnaður við rakstur fyrir mig á ári með notkun Gillette væri því yfir 30 þúsund krónur.

Árið 2012 var ég orðinn þreyttur á okrinu á rakvélablöðum í íslenskum verslunum og ákvað að leita lausna á alnetinu. Eftir nokkra leit og samanburð pantaði ég 100 Derby Extra Double Edge Razor Blades fyrir tæpa 12 dollara á eBay í nóvember 2012. Í dag virðist hægt að fá þau á um 10 dollara, með tolli sent til Íslands þá undir 1500 krónum m.v. gengið í dag.


Hvernig er endingin?

Ég er ennþá að nota þennan sama pakka og ég keypti í nóvember árið 2012. Í dag eru liðin fjögur ár og fimm mánuðir síðan þá, m.ö.o. 53 mánuðir. Enn eru eftir 60 blöð af þessum hundrað úr pakkanum, sem þýðir að ég hef notað 40 blöð á rúmum fjórum árum, að meðaltali 0.75 blöð á mánuði.

Ég keypti sköfu á sama tíma sem kostaði um 500 krónur frá eBay með tolli til landsins og síðar Razorpit brýnara fyrir rakvélablöð (sem kostar 18 dollara á Amazon.com í dag).

Mér fannst Gillette blöðin alltaf endast alltof stutt og vera alltof dýr miðað við endingu. Miðað við endinguna hingað til sé ég hins vegar fram á að Derby Extra Double Edge pakkinn sem ég keypti árið 2012 muni endast mér til ársins 2022, eða í tíu ár. Ekki slæmt. Sparnaðurinn á ári m.v. að velja síðarnefnda kostinn samanborið við Gillette úr búð á Íslandi getur þá reiknast svona (ending Gillette blaðs frá viku upp í mánuð):

1: Gillette blað endist í eina viku Kostnaður á ári
Gillette Fusion Proglide blöð keypt hjá Hagkaupum  31.788 ISK 
Derby Extra blöð keypt á eBay  150 ISK 
Sparnaður á ári  31.638 ISK 
Sparnaður á ári (%) -99,5%

2: Gillette blað endist í tvær vikur Kostnaður á ári
Gillette Fusion Proglide blöð keypt hjá Hagkaupum  15.894 ISK 
Derby Extra blöð keypt á eBay  150 ISK 
Sparnaður á ári  15.744 ISK 
Sparnaður á ári (%) -99,0%

3: Gillette blað endist í einn mánuð Kostnaður á ári
Gillette Fusion Proglide blöð keypt hjá Hagkaupum  7.947 ISK 
Derby Extra blöð keypt á eBay  150 ISK 
Sparnaður á ári  7.797 ISK 
Sparnaður á ári (%) -98,0%

Ég get því hiklaust mælt með Derby Extra blöðunum, bæði hvað varðar endingu og kostnað. Það segir sig líka sjálft út frá þessu að þau eru mun umhverfisvænni kostur en Gillette blöðin.