Hugmyndin að
blogginu kemur í raun úr ýmsum áttum en fyrst og fremst vegna áhuga á
neytendamálum, nýtni og einfaldleika. Það tvennt síðstnefnda er að miklu leyti
innblástur frá ömmu minni heitinni.
Uppskriftirnar á
blogginu eru flestar einfaldar og hollar, a.m.k. miðað við margt annað. Margar
þeirra koma úr indverskri matarmenningu, en matarvenjur mínar breyttust
töluvert eftir nokkurra mánaða dvöl hjá grænmetisætum á Indlandi. Ég hafði efasemdir
fyrirfram þegar ég fékk að vita að gestgjafafjölskyldan væri grænmetisætur af
trúarástæðum (þau aðhyllast grein Hindúisma þar sem kjötneysla tíðkast ekki). Ég
hef aldrei bragðað eins góðan mat og ég fékk á þessu heimili og kom mér mjög
skemmtilega á óvart hversu fjölbreyttur og góður maturinn var þrátt fyrir kjöt-
og fiskleysið. Þarna voru ótrúlegustu réttir galdraðir fram, oft úr einföldu
hráefni á borð við kartöflur, linsubaunir og tómata en stundum úr meira
framandi tegundum á borð við tamarind,
okra
og sinnepsfræum.
Annað sem kom mér á óvart var að ég fann engan neikvæðan mun á heilsu vegna
grænmetisfæðisins, þvert á móti fannst mér ég léttari á mér og hressari ef
eitthvað var.
Síðan þá hef ég
snarminnkað kjöt- og fiskneyslu þótt ég sé ekki orðinn 100% grænmetisæta og
hafi ekki hugsað mér að hætta kjöt- eða fiskáti. Annar kostur við grænmetisfæðið
er að það er almennt ódýrara og endist oft lengur en kjöt og fiskur (t.d.
baunir og linsubaunir). Enn fremur eru umhverfisáhrifin minni og nægir að nefna
verksmiðjubúskap
með dýr og gríðarleg umhverfisáhrif hans. Með sívaxandi mannfjölda jarðar
er þörf á breytingu í neysluháttum, m.a. meiri grænmetisneyslu en líka
skordýraáti eins og m.a. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til á síðustu árum.
Ég mun þó ekki birta skordýraupskiriftir, a.m.k. ekki til að byrja með.
Á Íslandi hefur
frekar lítið verið fjallað um neytendamál og oft virðist sem fólk sé bara vant
verðsamráði, klíkuskap, einokun og að láta okra á sér...og kippi sér lítið upp
við að. Þó virðast blikur á lofti núna, með opnun stórra alþjóðlegra verslana á
borð Costco á matvörumarkaði og H&M í fataverslun.
Ég starfa við markaðssetningu á netinu, þýðingar og prófarkalestur. Ef þig vantar aðstoð við eitthvað af þessu vísa ég á heimasíðu mína: gudfm.com
Ég starfa við markaðssetningu á netinu, þýðingar og prófarkalestur. Ef þig vantar aðstoð við eitthvað af þessu vísa ég á heimasíðu mína: gudfm.com
Engin ummæli:
Skrifa ummæli