sunnudagur, 6. ágúst 2017

Rajma (indverskur nýrnabaunaréttur)

Rajma er virkilega bragðgóður grænmetisréttur úr nýrnabaunum og einn af bestu réttunum sem ég smakkaði á Indlandi. Það er hægt að nota niðursoðnar nýrnabaunir og undirbúa réttinn samdægurs en ég nota venjulega þurrar nýrnabaunir, sem ég læt þá fyrst liggja í bleyti inni í ísskáp yfir nótt. Rétturinn hentar vel með hrísgrjónum eða nanbrauði.

Undirbúningur: 8 klst (eða 5 mín með niðursoðnum nýrnabaunum)  Heildartími: 9 klst. (eða 35 mín með niðursoðnum nýrnabaunum)


Innihald

150 g nýrnabaunir
2 meðalstórir laukar (saxaður)
2 stórir tómatar (sneiddir í litla bita)
2 grænir chili (smátt saxaðir)
1 cm ferskt engifer (smátt saxað)
1 tsk kóríanderkrydd
1/2 tsk garam masala
1 tsk salt
Dass af ferskum kóríander (ef vill)

Aðferð

Leggið nýrnabaunirnar í skál með vatni inn í ísskáp og látið standa yfir nótt (sleppið ef notaðar eru niðursoðnar baunir).

Sjóðið baunirnar í hraðsuðupotti í hálftíma. Hitið olíu í stórum potti og bætið síðan við söxuðum lauk og engifer. Steikið þar til laukurinn verður gullinbrúnn. Bætið tómötunum við ásamt grænum chili og sjóðið þar til blandan verður hlaupkennd. Bætið nú við kóríanderkryddi, salti og tveimur bollum af vatni og sjóðið vel. Bætið næst við nýrnabauninum úr hraðsuðupottinum eða dósinni og sjóðið við vægan hita í 10 mínútur. Stráið garam masala yfir réttinn og sjóðið í 15 mínútur í viðbót þar til blandan þykknar.

Skreytið að lokum með ferskum kóríander og berið fram með hrísgrjónum eða nanbrauði.

Rajma (indverskur nýrnabaunaréttur)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli