Netverslun hefur
vaxið hratt á undanförnum árum, t.d. á fatnaði, raftækjum og húsgögnum. Að
versla á netinu felur í sér ákveðin þægindi og í mörgum tilvikum tímasparnað.
Netverslun hefur gjörbreytt neyslumenningunni og einn angi þróunarinnar er að
hefðbundnar verslanir verða stundum eins og sýningarstaðir fyrir vörur sem
neytendur panta síðan á netinu. Þetta getur t.d. átt við í fataverslunum, þar
sem neytandinn kemur í búðina og mátar en pantar síðan varninginn hjá annarri
verslun á netinu, t.d. þar sem lægra verð fæst. Á Íslandi hafa pantanir frá
Aliexpress snaraukist, enda verðið oftar en ekki hagstæðara en það sem býðst
annarsstaðar en vörurnar eru þá sendar frá Kína.
Lágt verð á
fatnaði er einn þeirra þátta sem stuðlar að óábyrgri neysluhegðun, sem felst
meðal annars í því þegar fólk kaupir miklu meira af fötum en það þarf. Það
þykir smart að gera „góð kaup“ á útsölu, þótt flíkurnar endi jafnvel ónotaðar í
fataskápnum. Fataframleiðsla er einn mest mengandi iðnaður í heimi (númer tvö á eftir olíuiðnaðnum) og meira af skordýraeitri er notað vegna bómullarræktunar en í
nokkurri annarri ræktun. Fólkið sem framleiðir fötin þarf í mörgum tilvikum að
strita á lúsarlaunum við að plokka bómull, að standa berfætt í sýrubaði með fötin og sæta hótunum og ofbeldi frá yfirmönnum.
Á Íslandi eyddi
fólk tæpum 200 þúsund krónum í föt á mann í fyrra skv. Meniga. Með því að eyða
helmingi minna mætti t.d. komast í ágæta utanlandsferð eða spara meira fyrir
útborgun á íbúð. „Ekki gefast upp“, eins og Íslandsbanki orðar það í auglýsingaherferðinni.
Hvaða lausnir eru í boði?
Sem neytendur
getum við lagt okkar af mörkum til að breyta fataiðnaðinum. Við getum t.d. átt
og notað fötin okkar lengur. Við getum gert við þau eða látið gera við þau ef
þau eru farin að gefa sig og við getum keypt notuð föt í stað nýrra. Fatnað sem
við notum ekki getum við gefið í fatasöfnun, t.d. hjá Rauða krossinum, líka
fatnað sem er slitinn því hann er líka endurnýttur, m.a. í tuskur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli