laugardagur, 31. mars 2018

Gulrótastappa

Gulrótastappa
Gulrótastappa
Gulrótastappa er einfalt meðlæti og ágætis tilbreyting við t.d. kartöflustöppu. Þessi stappa rennur mjög ljúflega niður, m.a. vegna smjörsins í henni.

Undirbúningur: 10 mín. Heildartími: 30 mín.


Innihald (fyrir 4)

500 g gulrætur
4 msk smjör
1/2 bolli kjúklingakraftur eða grænmetiskraftur
salt og pipar eftir smekk
2 tsk óreganó

Aðferð

Skrælið og sneiðið gulræturnar í um eins sentimetra langa bita. Sjóðið þær í potti í 15 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga gaffli í gegn. Síið vatnið burt og hafið gulræturnar áfram í pottinum. Bætið við smjöri, kjúklingakrafti, salti, pipar og óreganó. Stappið gulræturnar og blandið öllu vel saman. Smakkið til og bætið við salti ef með þarf.

fimmtudagur, 8. mars 2018

Hversdagsréttur Brasilíubúa - svartar baunir og grjón (feijoada com arroz)

Feijoada eða Feijão heitir hversdagsréttur með svörtum baunum, sem upprunninn er í Brasilíu. Hann er venjulega borðaður með hrísgrjónum, þaðan kemur þetta "com arroz" á portúgölskunni. Margir borða réttinn nánast daglega, en af honum eru til ýmis afbrigði. Oft er hann með pylsubitum og stundum steiktu beikoni.

Uppskriftin sem fer hér á eftir er kjötlaus og óhætt er að mæla með henni.

Hversdagsréttur Brasilíubúa
























Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 1 klst

Innihald (fyrir 5-6)

5 msk matarolía
5 gulrætur, sneiddar
2 laukar, sneiddir
1 tsk tímían
4 dósir af svörtum baunum, síuðum og skoluðum í vatni
3 tómatar, sneiddir í bita
2 bollar grænmetiskraftur
4 hvítlauksrif, fínsöxuð
1 rauður chili, fínsaxaður
1 handfylli af ferskum kóríander, söxuðum

Aðferð

Hitið olíuna í stórum potti á meðalháum hita. Setjið laukbitana, chili og tímían út í og léttsteikið í 5-6 mínútur, þar til laukurinn gyllist. Hellið svörtu baununum út í ásamt grænmetiskraftinum, tómötunum og hvítlauknum. Látið suðuna koma upp og lækkið hitann. Setjið lokið á pottinn og látið sjóða í 45 mínútur. Hrærið aðeins í annað slagið. Takið pottinn að lokum af hellunni og hrærið ferskum kóríander út í. Saltið og piprið eftir smekk.

Borið fram með t.d. hrísgrjónum eða bankabyggi. Prófaði með ómöluðu spelti (mjög svipað bankabyggi) og það kom mjög vel út.
---
Ef afgangur verður, geymist rétturinn ágætlega og auðvelt er að hita hann upp í 15 mín í potti eða setja í örbylgjuofn.

mánudagur, 5. mars 2018

Gulrótarkaka með hindberjum

Þessi einfalda gulrótarkaka er með votti af hindberjabragði, sem passar ágætlega saman, merkilegt nokk. Hentar vel í morgunmat, sem eftirréttur eða með kaffinu.

Undirbúningur: 15 mín. Heildartími: 1 klst og 15 mín.
Gulrótarkaka

Innihald (fyrir sex manns)


2 1/2 bollar heilhveiti
1 dl sykur
2 dl hunang
1 tsk matarsódi
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
3 egg, pískuð
1/2 bolli repjuolía
1/2 bolli mjólk
2 bollar rifnar gulrætur
200 g frosin hindber, þýdd í potti

Stillið bakaraofninn á 180 gráður og smyrjið form með matarolíu eða smjöri. Blandið þurrefnunum saman í skál. Takið fram aðra skál og pískið eggin, olíuna og mjólkina saman. Bætið þeirri blöndu síðan saman við þurrefnin. Setjið því næst gulræturnar og hindberin saman við og hrærið vel saman. Ef deigið er of lint má bæta aðeins meira mjöli við. Hellið deiginu í formið/formin og bakið í klukkutíma. Takið úr forminu og látið kólna. Berið fram nýbakað með smjöri og hunangi.

Kakan geymist vel í ísskáp.

Gulrótarkökur, skreyttar að ósk Óskar (10)